Ársskýrsla 2009

Ársskýrsla 2009

GRÆNFÁNI – UMHVERFISNEFND

-

Samantekt vetrarins 2009/2010

 

 

Að hausti 2009 var þráðurinn tekinn upp að nýju þar sem frá var horfið vorinu áður, þ.e. að leggja áherslu á flokkun úrgangs. Umhverfisnefndina skipuðu í ár auk undirritaðs Ari, Guðríður, Anna Margrét, Erna Ingvarsdóttir, Guðjón Árna og Magnús húsvörður. Nefndin hélt all nokkra formlega fundi á tímabilinu, auk fjölda óformlegra samræðustunda.  Á síðasta ári var komið fyrir í öllum kennslustofum og vinnurýmum grænum plastkassa undir pappír og gulum kassa í kennslustofur yngri barna undir mjólkurfernur. Umhverfisnefndin setti sér eftirfarandi markmið fyrir skólaárið 2009/2010:

  1. Finna leiðir til að virkja nemendur með virkari hætti varðandi eftirlit með flokkuninni og losun kassanna.
  2. Taka upp flokkun lífræns úrgangs, bæði í matsal og kennslustofum. Takmarkið er að minnka úrgang til urðunar um a.m.k. 60%.
  3. Efla fræðslu í öllum bekkjum skólans og meðal starfsfólks varðandi flokkun og endurvinnslu.
  4. Efla umhverfisvitund og samfélagskennd meðal nemenda.

 

Samið var við nemendur 7. bekkjar að tæma reglulega grænu og gulu söfnunarkassana fyrir pappír og fernur og fá þeir smá greiðslu fyrir sem rennur í ferðasjóð bekkjarins. Auk þess sjá þessir nemendur um að hreinsa rusl á víðavangi innan bæjarins u.þ.b. mánaðarlega. Hvoru tveggja leystu nemendurnir vel af hendi. 10. bekkingar aðstoða í mötuneyti, m.a. við flokkun þess lífræns úrgangs sem til fellur.

 

Búið er að taka upp flokkun lífræns úrgangs innan skólans. Í kennslustofum þar sem nemendur borða nestið sitt var komið fyrir litlum ílátum með maíspokum undir lífrænar matarleifar. Pokarnir með innihaldi þeirra er síðan sett í tunnu undir lífrænan úrgang á gámasvæðinu. Í matsal var komið fyrir stærri ílátum undir þær matarleifar sem þar falla til. Allur lífrænn úrgangur sem safnast með þessum hætti er fluttur á Selfoss til jarðgerðar. Almennt hefur flokkun lífræns úrgangs gengið nokkuð vel, en frekari úrbóta er þó þörf í matsal. Ekki hefur enn tekist að afla tölulegra gagna um minnkun sorps til urðunar.

 

Til að ná settu marki varðandi fræðslu um flokkun og endurvinnslu var samið við Íslensku Gámaþjónustuna um að senda ráðgjafa sína í heimsókn í skólann. Heimsóttu þeir alla bekki skólans, fyrst var almennur fyrirlestur fyrir hvert skólastig og síðan tóku við verklegar æfingar inni í hverjum bekk. Markmið heimsóknarinnar var að veita nemendum aukna fræðslu um tilgang og framkvæmd flokkunarinnar. Á yngsta stigi voru unnin einföld, myndræn verkefni um hvernig flokka eigi heimilissorp, sem og hvernig mismunandi hráefnisflokkar eru endurunnir. Á miðstigi var stutt kynning á hvernig flokka á heimilissorp, hvers vegna verið er að flokka og hvað sé gert við það sem flokkað er. Á elsta stigi var farið yfir það hvernig á að flokka og hvers vegna verið er að því. Fjallað var um hvað verði úr mismunandi hráefnum og þann umhverfissparnað sem vinnst með endurvinnslunni. Ennfremur var fjallað um þau áhrif sem lífsstíll okkar hefur á jörðina og hugtakið vistspor (Ecological footprint) útskýrt. Til að starfsfólk skólans væri sér betur meðvitað um flokkun og endurvinnslu úrgangs bauð Íslenska Gámfélagið starfsfólki í heimsókn í höfuðstöðvar sínar, sem góður hópur starfsmanna nýtti sér.

 

Í skólanum voru unnin fleiri verkefni í tengslum við umhverfismennt. Á yngsta stigi er í gangi samstarfsverkefni á milli Grunnskólans og Landbúnaðarháskóla Íslands er nefnist Græna framtíðin. Markmið verkefnisins er að nýta þá aðstöðu og þekkingu sem er til staðar á Reykjum, þjálfa kennara Grunnskólans í verklegri kennslu á sviði náttúrufræða og færa hefðbundna kennslu út fyrir veggi skólastofunnar. Þegar líður að vori fara nemendur upp á Reyki og sá þar t.d. sumarblómum, sem fylgt er reglulega eftir með priklun og vökvun. Nemendur 6. bekkjar tóku þátt í alþjóðlegu vatnsmælingaverkefni, þar sem unnið er með vatnsgæði neysluvatns og þau rannsökuð. Verkefnið fólst í að rannsaka hitastig, grugg, súrefni og sýrustig í neysluvatni skólans, Varmánni og lækjarsprænu neðan sundlaugar. Að loknum mælingum og úrvinnslu voru niðurstöðurnar sendar til íslensku verkefnisstjórnarinnar (á www.vatnid.is)  sem síðan kemur þeim til alþjóðaheimasíðunnar (www.worldwatermonitoringday.org).

 

Í þeim tilgangi að efla samkennd og samfélagskennd meðal nemenda starfa s.k. vinabekkir innan skólans, vinahóparnir eru þannig skipaðir að 1., 5. og 10.bekkur mynda einn vinahóp, 2., 6. og 9. bekkur annan vinahóp, 3. og 7. bekkur þann þriðja og 4. og 8. bekkur þann fjórða. Meðal fyrstu verkefna haustsins var gönguferð nemenda í 1., 5. og 10. bekk að útistofu skólans undir Hamrinum til að gróðursetja trjáplöntur sem skólanum hafði verið úthlutað úr Yrkjusjóði. Nemendunum var raðað í litla hópa, þannig að 5. og 10. bekkingar leiddu nemanda úr 1. bekk á milli sín. Í byrjun desember fóru vinahóparnir í vasaljósafriðargöngu fram hjá Reykjum, inn með Reykjafjalli og niður hjá Heilsustofnun og í skólann. Í lok janúar heimsóttu 10. bekkingar vini sína í 1. bekk og fræddu þá um flokkun á rusli, að lokum var farið saman í mötuneytið til skoða flokkunina þar og á nýja ruslaplanið til að sjá hvert ruslið færi.

 

Síðastliðið haust hófust framkvæmdir við eldstæði og skýli neðan við útistofuna Lund. Þar er nú hægt að orna sér við eld eða steikja pylsur og brauð. Efniviður til skýlisgerðar  er komin á staðinn, en efnið kom frá skógrækt ríkisins í Haukadal. Nokkrir sjálfboðaliðar á haustdögum væru vel þegnir til að ljúka þessari framkvæmd. Drekinn fór upp úr viði frá Selvogi og vonandi bætist bara við hann og hann lengist. Þá er Jónas, Hildigunnur, Dúfa Dröfn og Guðjón komin af stað með Þrautabrautina sem mun nýtast vel við íþróttakennslu. Undir vor kom salernisaðstaða við Hamarinn sem gerir kleyft að fara með hópa og dvelja lungann úr skóladegi.

 

Kannski notuðu kennarar Lund og nágrenni fulllítið. Heyrst hefur að kennara vantaði konkret verkefni til að vinna að, sem vel má vera rétt, en vilji nefndarinnar var að sem mest og flest væri sjálfsprottið frá kennurunum sjálfum eða nemendum. Ábending frá okkur er að kennarar leiti hugmynda á veraldarvefnum eða hvar annarsstaðar sem hugmyndir liggja frammi. Meðal annars er mappa á vinnustofu kennara merkt útistofu og þar má finna ýmsan fróðleik.

 

Síðastliðinn vetur var Útistofuhópur (í vali) starfandi. Þetta voru vaskir sveinar sem unnu verk sín vel, í útstofu á meðan tíðin leyfði og svo við húsgagnagerð í mesta skammdeginu. Þau húsgögn prýða núna setustofu nemenda.

 

Í heild gekk starfið mjög vel og mikilvægir áfangar náðst. Á næsta skólaári þarf að halda áfram á sömu braut, en mikilvægt er að finna árangursríkar leiðir til að gera nemendur virkari þátttakendur í ákvarðanatöku verkefnisins. Sorpflokkun í matsal er ábótavant og gera þarf átak í þeim efnum með haustinu.

 

Virðingarfyllst

Garðar R. Árnason

verkefnisstjóri

 

 

 

Go to top