Ársskýrsla 2008

Ársskýrsla 2008

GRÆNFÁNI – UMHVERFISNEFND

-

Samantekt vetrarins 2008/2009

 

 

Starfið hófst með skipan umhverfisnefndar um miðjan nóvember 2008. Við skipan nefndarinnar var lögð áhersla á að sem flest starfssvið innan skólans ættu þar fulltrúa ásamt nemendum af öllum þremur stigum skólans. Fulltrúar starfsmanna í umhverfisnefndinni eru Garðar, Ari, Guðríður, Anna Margrét, Helga aðstoðarskólastjóri og Magnús húsvörður og fulltrúar nemenda eru Sesselja (yngsta stig), Hilmar (miðstig) og Eggert (elsta stig). Nefndin hélt þrjá formlega fundi á tímabilinu, auk fjölda óformlegra samræðustunda. Fundargerðirnar má finna á innra neti skólans undir heitinu Grænfáni á kennarasameigninni.

 

Fyrsta verk nefndarinnar var að kanna stöðu umhverfismála í skólanum. Í þeim tilgangi var umfangsmikill gátlisti lagður fyrir starfsfólk skólans á starfsmannafundum í byrjum desember. Ætlunin er að leggja gátlistann fram fyrir starfsfólk með reglulegu millibili á næstu árum, svo unnt sé að fylgjast betur með hvað áunnist hefur og hvar skóinn kreppi helst hverju sinni.

 

Nefndin lagði áherslu á að ætla sér ekki um of í byrjun, í þess stað byrja rólega með afmarkaða þætti svo allir, bæði starfsfólk og nemendur, næðu betur að aðlaga sig að þeirri hugmyndafræði sem verkefnið byggir á. Ákveðið var í byrjun að einebita sér að flokkun og söfnun pappírs og mjólkurferna í skólanum. Í þeim tilgangi var komið fyrir í öllum kennslustofum og vinnurýmum grænum plastkassa undir pappír og gulum kassa í kennslustofur yngri barna undir mjólkurfernur. Dálitlir hnökrar komu fram í byrjun, ekki síst vegna skorts á vöskum í nokkrum kennslustofum til að skola fernurnar, en almennt má segja að flokkunin hafi gengið vel. Næsta skólaár þyrfti að finna leiðir til að virkja nemendur með virkari hætti varðandi eftirlit með flokkuninni og losun kassanna. Nefndin setur auk þess spurningamerki við nauðsyn þess að bjóða upp á mjólk í nestistímum, hvort ekki sé nóg að bjóða upp á mjólk út á hafragrautinn á morgnanna og með matnum í hádeginu.

 

Mikilvægur þáttur í Grænfánaverkefninu er að skólinn setji sér umhverfisstefnu og kom nefndin fram með tillögu að umhverfisstefnu skólans í marsbyrjun og sem lögð var fyrir skólastjórnendur. Umhverfisstefna skólans er:

Grunnskólinn í Hveragerði kappkostar að hafa sjónarmið umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi, í samræmi við markmið Staðardagskrár 21 þar sem stefnt er að því að daglegt líf stuðli að sjálfbæru samfélagi. Skólinn leggur áherslu á að nemendur verði meðvitaðir um umhverfi sitt og mikilvægi þess að ganga um náttúru og auðlindir jarðar af virðingu og ábyrgð. Skólinn einsetur sér að nota starfshætti umhverfisverndar og stuðla að umhverfisvænu samfélagi. Takmarkið er að umhverfisstefnan verði hluti af daglegu lífi nemenda og starfsfólks hvort heldur er á vinnustað, á heimili, á ferðalagi eða annars staðar.

Markmið

  • Að stuðla að umhverfisvænum starfsháttum og lífsvenjum, með áherslu á að halda mengun og verðmætasóun í lágmarki.
  • Að stuðla að aukinni vitund nemenda og starfsfólks um umhverfismál.
  • Að nemendur og starfsfólk læri að lifa í sátt við umhverfi sitt.
  • Að efla færni nemenda og starfsfólks til að takast á við umhverfismál á jákvæðan hátt, náttúrunni og samfélaginu til heilla.
  • Að gera nemendum og starfsfólki ljóst að það er hagkvæmt fyrir samfélagið að draga úr mengun, verðmætasóun og orkunotkun.
  • Að vinna gegn hvers konar mengun og umhverfisspjöllum.
  • Að umhverfisfræðsla verði hluti af námi allra bekkja skólans, með samþættingu námsgreina.
  • Að hvetja til útivistar og hreyfingar.
  • Að nemendur séu meðvitaðir um hvernig hægt er að bæta líf sitt og komandi kynslóða með því að umgangast umhverfi sitt og náttúru af tillitssemi og umhyggju.
  • Að umhverfisvernd verði samvinna heimila og skóla.

 

 

Umhverfisstefna skólans markar meginskref verkefnisins á næsta ári. Áherslan verður þá m.a. lögð á aukna umhverfisfræðslu meðal nemenda, auk áframhaldandi flokkun sorps. Nýleg útistofa, Lundur, undir Hamrinum á án efa eftir að nýtast mjög vel í þeim tilgangi.

 

Garðar R. Árnason

Go to top