Stjórnun og starfsmannastefna

Starfsmannastefnan

Starfsmannastefna Grunnskólans í Hveragerði

Það er hluti af auðlind hvers skóla að hafa í sinni þjónustu starfsfólk sem gerir skólann að því sem hann er. Það er forráðamönnum skólans ljóst að til þess að sem best takist að koma sýn skólans, viska, virðing og vinátta í framkvæmd og stuðla að framsæknu og öflugu skólastarfi þarf hann að hafa í þjónustu sinni vel menntað og hæft starfsfólk.

Til að svo megi verða er stefnt að eftirfarandi:

  • Að hafa í þjónustu skólans hæfileikaríkt starfsfólk með faglega þekkingu, menntun og áhuga á starfi með börnum og unglingum.
  • Að haga stjórnun og vinnutilhögun þannig að hæfileikar, frumkvæði og dugnaður hvers starfsmanns fái notið sín.
  • Að starfsmannafundir séu haldnir að minnsta kosti einu sinni í mánuði.
  • Að hafa starfsmannaviðtöl að minnsta kosti einu sinni á skólaárinu.
  • Að hvetja starfsfólk til þess að viðhalda menntun sinni og afla sér nýrrar þekkingar.
  • Að veita starfsmönnum sem mest svigrúm til að sinna tilrauna- og þróunarstarfi, námsefnisgerð og nýjungum á sviði menntunar og uppeldis.
  • Að efla gagnkvæma virðingu og traust meðal starfsfólks og nemenda.
  • Markvissri upplýsingagjöf til starfsfólks, m.a. með skilvirkri notkun upplýsingatöflu og tölvusamskiptum. 

 

Hlutverk stjórnenda

Skólastjóri, er forstöðumaður skólans, stjórnar honum og veitir honum faglega forystu. Hann ber faglega og rekstrarlega ábyrgð á starfsemi skólans í samræmi við lög, reglugerðir, og samþykktir sveitarstjórnar. Hann verkstýrir öðrum stjórnendum og starfsmönnum skólans. Deildarstjórar eru fimm, einn á hverju stigi og einn deildarstjóri sérkennslu. Einn af deildarstjórum er staðgengill skólastjóra. Deildarstjóri er tengiliður á milli skólastjóra, og kennara og skipuleggur stigsfundi í samráði við þá. Á þessum fundum eru rædd mál sem tengjast t.d. kennsluháttum, líðan nemenda, agamálum, námsmati og sjálfsmati skóla. Deildarstjóri kemur á framfæri við skólastjóra óskum kennara sem varða fjárhagsáætlun skólans. Deildarstjórar sitja í stjórnendateymi skólans en í því sitja auk þeirra, skólastjóri og deildarstjóri sérkennslu. Stjórnendateymið fundar eins oft og þurfa þykir.


Hlutverk umsjónarkennara

Í lögum um grunnskóla (nr. 66/1995) er fjallað um hlutverk umsjónarkennara. Þar segir: „Umsjónarkennari fylgist náið með námi nemenda sinna og þroska, leiðbeinir þeim í námi og starfi, aðstoðar og ráðleggur þeim um persónuleg mál og stuðlar að því að efla samstarf skóla og heimila.


Hlutverk annars starfsfólks

Skólaliðar sjá um gæslu á göngum, í mötuneyti og úti í frímínútum. Hlutverk þeirra er mikilvægt og nauðsynlegt í skólasamfélaginu. Skólaliðar sjá einnig um þrif í skólanum.

Matráður rekur mötuneyti nemenda og starfsfólks. Matráður vinnur samkvæmt manneldismarkmiðum Lýðheilsustöðvar.

Stuðningsfulltrúi er kennara til aðstoðar við að sinna einum eða fleiri nemendum, sem þurfa sérstaka aðstoð. Stuðningsfulltrúar vinna undir verkstjón kennara. Starfið miðar fyrst og fremst að því að auka færni og sjálfstæði þessara nemenda, félagslega og námslega og í daglegum athöfnum. Unnið er samkvæmt áætlun, sem unnin er af deildarstjóra sérkennslu, bekkjarkennara, sálfræðingi eða öðrum ráðgjöfum. Markmiðið er að draga smám saman úr þörf nemenda á stuðningi ef mögulegt er. Starfsvettvangur stuðningsfulltrúa getur verið innan almennra bekkja eða stuðningsdeildar. Ennfremur eru þeir á vakt í frímínútum og starfa í skólaseli.

Go to top