Samstarf leikskóla og grunnskóla

Samstarf leikskóla og grunnskóla

Samstarf leikskóla og grunnskóla er mikilvægur þáttur í skólabyrjun barns og í Grunnskólanum í Hveragerði höfum við lagt okkur fram um að gera flutning barna á milli skólastiga sem auðveldastan og ánægjulegastan fyrir nemendur og foreldra.

Undanfarin ár höfum við unnið eftir þróunaráætlun um samstarf leikskólanna og Grunnskólans í Hveragerði. Gott samstarf hefur verið á milli leikskólanna og Grunnskólans í nokkur ár sem hefur komið sér vel. Kennarar 1. bekkja, kennarar skólahóps á leikskóla auk stjórnenda úr öllum skólunum hafa fundað að minnsta kosti tvisvar á önn og rætt saman um skólastarfið á báðum stigum. Í vetur munum við fjölga fundunum og funda einu sinni í mánuði. Á þessum fundum höfum við skipst á upplýsingum um starfið í skólunum. Við kennarar höfum leitast við að átta okkur á hvaða reynslu börnin koma með úr leikskólanum. Rætt hefur verið um hvernig við getum byggt ofan á hana en sú reynsla þarf að nýtast barninu þegar kemur að því að skilja og fást við ný og óþekkt viðfangsefni.

Kennslan í fyrsta bekk hefur farið fram í sér húsnæði, sem við köllum Mjólkurbú, á lóð skólans og hefur það reynst gott fyrirkomulag. Húsnæðið minnir á margan hátt fremur á leikskólahúsnæði en grunnskóla.

Samstarf leikskólanna og Grunnskólans hefst þegar barn er á síðasta ári í leikskóla í skólahópi. Strax þá um haustið koma börnin í heimsóknir með leikskólakennurunum þar sem þau fá að skoða skólann og hitta skólastjórnendur. Fyrir jólin koma þau og taka þátt í gangasöng með öllum nemendum skólans. Eftir áramót koma þau svo í heimsóknir í 1. bekkinn og taka þátt í skólastarfinu. Börnin í 1. bekk bjóða þeim að koma og horfa á atriðin sem þau sýna foreldrum á bekkjarkvöldi og á árshátíð. Um vorið er sameiginleg gönguferð með báðum leikskólunum og 1. bekkjunum.

Síðasti þátturinn í samstarfinu er vorskólinn. Öll börnin fá boðsbréf í vorskólann sem er í þrjá daga. Fyrsta daginn í vorskólanum er foreldrum boðið að koma í heimsókn í kaffispjall þar sem þeim gefst tækifæri til að kynnast öðrum foreldrum. Þeir geta einnig áttað sig á hvaða börn eru með barninu þeirra í árgangi.

Þarna hitta þeir kennarana og skoða húsnæðið. Kaffispjallið er óformlegt en foreldrar geta spurt.  Stefnt er að því að þeir kennarar sem munu kenna 1. bekk veturinn eftir taki á móti nemendum í vorskólanum.  Um það bil viku af júní er formlegur fundur með öllum foreldrum á sal skólans. Þar kynna kennarar starfið í fyrsta bekk og svara spurningum. 

Í september fara nemendur í 1. bekk í heimsókn í gamla leikskólann sinn. 

Go to top