Að byrja í 1. bekk

Að byrja í 1. bekk

Foreldrar sem eiga lögheimili í Hveragerði þurfa ekki að skrá barn sitt í skólann, það gerist sjálfkrafa. Í maí er þriggja daga vorskóli fyrir börn sem hefja nám í 1. bekk haustið eftir. Í lok vorskólans er foreldrum boðið að koma í óformlegt foreldrakaffi. Stefnt er að því að kennarinn sem kennir þeim í 1. bekk taki á móti þeim í vorskólanum.

Í júní er fundur í Grunnskólanum í umsjá umsjónarkennara fyrsta bekkjar með foreldrum þeirra barna sem hefja þar nám um haustið. Þar er starfið í 1. bekk kynnt og lögð áhersla á að foreldrar kynnist innbyrðis.
Á starfsdögum kennara að hausti, áður er skólastarfið hefst, boðar umsjónarkennari foreldra í viðtal með barni sínu.

Skólafærninámskeið er haldið í samvinnu við Foreldrafélagið fljótlega eftir að skóli hefst þar sem foreldrar hlýða á margskonar erindi sem varða skólabyrjun barna þeirra.

Kennarar í 1. bekk leggja áherslu á að vera í góðu sambandi við foreldra. Í janúar þegar skólaárið er hálfnað eru foreldraviðtöl þar sem farið er yfir stöðu barnsins og þegar skóla lýkur í júní koma foreldrar í síðasta foreldraviðtalið það skólaár. Þá er aftur farið yfir stöðu barnsins, hvaða árangri það hefur náð í náminu og hvernig félagsleg staða þess er.

Go to top