Nám og kennsla

Nám og kennsla

Nám og kennsla

Í 29. grein laga um grunnskóla segir: Menntamálaráðherra setur grunnskólum aðalnámskrá. Í henni er m.a. kveðið nánar á um uppeldishlutverk grunnskólans og meginstefnu í kennslu og kennsluskipan í samræmi við hlutverk grunnskólans, sbr. 2. gr.

Í starfi skólans skal leggja áherslu á:

- að efla sjálfsvitund og félagsvitund nemenda,

- að stuðla að líkamlegri og andlegri velferð, heilbrigðum lífsháttum og ábyrgri umgengni við líf og umhverfi,

- þjálfun í íslensku í öllum námsgreinum og leikræna og listræna tjáningu,

- hæfni nemenda til að skilja orsakasamhengi og draga rökréttar ályktanir,

- skilning og frjótt, skapandi starf og jafnvægi milli bóklegs og verklegs náms,

- að nýta leiki barna sem náms- og þroskaleið,

- að námið nýtist nemendum í daglegu lífi, frekara námi og starfi,

- að búa bæði kynin jafnt undir virka þátttöku í samfélaginu, fjölskyldulífi og atvinnulífi,

- margvíslegar leiðir við öflun þekkingar með notkun tæknimiðla, upplýsingatækni, safna- og heimildavinnu,

- náms- og starfsfræðslu, kynningu á atvinnulífi og námsleiðum til undirbúnings náms- og starfsvals.

Við setningu aðalnámskrár, skipulagningu náms og kennslu og við gerð og val námsgagna skal þess sérstaklega gætt að allir nemendur fái sem jöfnust tækifæri til náms, sbr. 2. gr." Í Grunnskólanum í Hveragerði er leitast við að fylgja markmiðum aðalnámskrár og þau sett fram í bekkjanámskrám.


Heimanám
Heimanám er mikilvægur þáttur í skólastarfi. Með heimanámi eiga nemendur að búa sig undir næsta kennsludag og rifja upp eldra námsefni. Mikilvægt er að foreldrar aðstoði börnin sín vel við heimanámið og hjálpi þeim að skipuleggja þann tíma sem ætlaður er fyrir heimanám.


Námsáætlanir
 
Í Aðalnámskrá er að finna námsmarkmið í hverri námsgrein. Í bekkjanámskrám er gerð grein fyrir hvert námsefnið er, hvaða kennslubækur eru notaðar og hvernig nám er metið.
Nemendur yngsta stigs og miðstigs fá vikulegar áætlanir. Á elsta stigi er ætlast til að nemendur skrái í skólakompu það sem fyrir er sett. Kennarar setja einnig námsáætlanir vikunnar inn á www.mentor.is ásamt öðru sem varðar nemendur. Mikilvægt er að foreldrar viti hvaða væntingar og kröfur skólinn gerir til nemenda og forráðamanna. Því er mikilvægt að fylgjast vel með skólakompunni og mentor.is.


Námsmat
Í 44. gr. laga um grunnskóla nr. 66/1995 er megintilgangur námsmats í grunnskólum ákveðinn. Þar segir: ,,Megintilgangur náms er örvun nemenda og námshjálp". Síðan segir: ,,Með námsmati í grunnskóla skal afla sem öruggastrar og víðtækastrar vitneskju um árangur skólastarfsins. Hverjum kennara og skóla ber að fylgjast vandlega með því hvernig nemendum gengur að ná þeim námsmarkmiðum sem Aðalnámskrá og skólinn setja þeim. Námsmat fer ekki einungis fram í lok námstímans, heldur er það einn af föstum þáttum skólastarfsins, órjúfanlegt frá námi og kennslu.” Skólaárið skiptist í tvær annir, haust – og vorönn. Í lok haustannar er námsmat afhent nemendum og forráðamönnum í foreldraviðtali og við lok vorannar fá nemendur námsmatið afhent. Leiðsagnarmat var notað í fyrsta sinn við Grunnskólann í Hveragerði í janúar 2009. Um var að ræða hefðbundinn undirbúning fyrir foreldradag, en með öðrum áherslum. Í fyrsta sinn var farið fram á þátttöku nemenda í mati á því starfi sem unnið var í skólanum fyrstu mánuði skólaársins. Leiðsagnarmat er eining í www.mentor.is sem gefur aukna möguleika á samstarfi nemenda, foreldra og skóla við markmiðasetningu og mat á stöðu og líðan nemenda. Mikilvægt er að nemendur taki virkan þátt í matinu með aðstoð foreldra eða forráðamanna. Markmiðið er að gera upplýsingagjöf á milli heimila og skóla markvissari og gagnkvæmari. Þannig safna kennarar betri upplýsingum um nemendur en áður og fá auk þess upplýsingar frá nemendum sjálfum um líðan þeirra í skólanum. Það gefur einnig tilefni til umræðna á heimilinu um gang mála í skólanum.

 

Go to top