Heim

Góðgerðadagur í GÍH

Föstudagurinn 4. desember er góðgerðadagur í Grunnskólanum í Hveragerði. Tildrög hans eru hugmynd sem vaknaði meðal starfsmanna skólans að þetta árið yrði þemað ekki bara uppbrot í skólastarfinu, heldur myndum við láta gott af okkur leiða á einhvern hátt. Í þemavinnu er gjarnan verið að vinna með ýmis konar handverk svo og skapandi verkefni á borð við leikatriði, tónlist og fleira skemmtilegt og það gerum við einnig þetta árið. Það sem er nýtt í ár er að síðasta daginn höldum við uppskeruhátíð – góðgerðadag – þar sem bæjarbúum og öllum öðrum sem vilja heimsækja okkur, gefst kostur á að skoða afrakstur vinnunnar og styðja við málefni dagsins á einhvern hátt.

Margt verður í boði fyrir gesti og gangandi á góðgerðadeginum. Dagskráin hefst kl. 9:00 með gangasöng í anddyri skólans og í beinu framhaldi opnar glæsilegt kaffihús í mötuneytinu þar sem hægt er að kaupa sér veitingar á vægu verði. Þá opnar líka markaðstorg nemenda, þar sem þeir verða með verk sín til sölu og sýnis. Víða um skólann má svo sjá tónlistar- og leikatriði, þar verður einnig að finna tombólu og margt fleira skemmtilegt. Kaffihúsið er opið til kl. 11:30 og markaðstorgið til kl. 12:00.

Þegar kom að því að velja málefni til að styrkja vandaðist málið aðeins – enda af nógu að taka. Við völdum að setja þessa ákvörðun í hendur nemenda. Í öllum bekkjum fór því fram umræða um hvaða tillögur nemendur hefðu og svo fékk nemendaráðið okkar það vandasama verkefni að velja hvert styrkur okkar rynni.

Nemendaráðið tók verkefnið mjög alvarlega, tók allar tillögurnar, ræddi um þær og svo fór fram leynileg kosning innan ráðsins. Niðurstaðan varð sú að ágóði dagsins skyldi renna til Amnesty International. Aðspurðir sögðu meðlimir ráðsins að það væri m.a. vegna þess að Amnesty berðist gegn því að börnum væri misboðið m.a. með því að ungar stúlkur væru þvingaðar í hjónabönd og gegn mannréttindabrotum um allan heim. Þeim fannst þetta mjög mikilvægt starf og það skipti mjög miklu máli að standa vörð um mannréttindi, bæði barna og fullorðinna hvarvetna. Það gleður mig innilega að sjá að þessi hópur hefur tileinkað sér svona hnattræna sýn og að unga fólkið okkar skuli bera slíka virðingu fyrir mannréttindum. Það er í raun einkar viðeigandi þar sem virðing og vinátta eru einmitt tvö af lífsgildum skólans okkar.

Því held ég að sé við hæfi að enda þennan pistil á 1.grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna: „Hver maður er borinn frjáls og jafn öðrum að virðingu og réttindum. Menn eru gæddir vitsmunum og samvisku, og ber þeim að breyta bróðurlega hverjum við annan.“

Sjáumst í skólanum J

Fanney Ásgeirsdóttir, skólastjóri

Smásagnasamkeppni á ensku

Á hverju ári, í tilefni af evrópska tungumáladeginum þann 26. september, stendur Félag enskukennara á Íslandi fyrir smásagnakeppni á ensku á meðal grunn- og framhaldsskólanemenda landsins. Undanfarin 3 ár höfum við í Grunnskólanum í Hveragerði tekið þátt og í ár voru það nemendur í 4. – 8. bekk sem tóku þátt í tveimur flokkum: 6. bekkur og yngri og 7. - 8. bekkur. Nemendur hafa sýnt keppninni sífellt meiri áhuga og lagt meiri metnað í sínar smásögur. Í fyrra sendum við níu smásögur inn í landskeppnina og unnu fimm þeirra til verðlauna. Að þessu sinni var hins vegar úr vöndu að ráða því nú megum við einungis senda þrjár smásögur í landskeppnina og okkur bárust yfir 150 smásögur!

Í síðustu viku héldum við hátíð á sal með nemendum í 4. – 8. bekk. Þar tilkynnti Fanney skólastjóri að valdar hefðu verið 30 smásögur til að fara á sýningu á bæjarbókasafninu í Sunnumörk í desember. Einnig veitti hún bókaverðlaun fyrir þær 3 sögur sem þóttu skara fram úr í hvorum flokki fyrir sig og tilkynnti loks hvaða smásögur yrðu sendar áfram í landskeppnina.

Bókaverðlaun í flokknum 6. bekkur og yngri fengu: Kristófer Kató Kristófersson í 4. bekk, Helga María Janusdóttir í 5. bekk og Sólveig Lilja Guðjónsdóttir í 6. bekk. Það var svo sagan hennar Sólveigar sem valin var í landskeppnina.

Bókaverðlaun í flokknum 7. – 8. bekkur fengu: Kolbrún Rósa Gunnarsdóttir í 7. bekk, Signý Ólöf Stefánsdóttir í 7. bekk og Gígja Marín Þorsteinsdóttir í 8. bekk. Það voru svo sögurnar þeirra Signýjar og Gígju sem valdar voru í landskeppnina.

Hér má sjá vinningshafana úr öllum bekkjum ásamt Fanneyju skólastjóra og Ólafi enskukennara.
Á myndina vantar Kristófer Kató.

Eldvarnarátak hófst í Hveragerði

Hið árlega Eldvarnaátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna var sett formlega hér hjá okkur í Grunnskólanum í Hveragerði í hádeginu í gær. Það var gert í samvinnu við Brunavarnir Árnessýslu. Athöfnin  var haldin á sal skólans þar sem starfsmenn Brunavarna Árnessýslu, ásamt Aldís bæjarstjóra, voru með eldvarnarfræðslu fyrir  nemendur í 3. bekk. Að því búnu var haldin rýmingaræfing í skólanum og heppnaðist rýmingin mjög vel. Skólinn var rýmdur á innan við þremur mínútum og búið var að gera grein fyrir öllum nemendum og starfsfólki á söfnunarsvæði innan sex mínútna.  Starfsfólk og gestir fengu að lokum æfingu í því að slökkva eld.

Það eru slökkviliðsmenn um allt land sem taka þátt í Eldvarnarátakinu í aðdraganda jólanna. Þeir heimsækja öll börn í 3. bekk á landinu og ræða við þau um eldvarni og fá  allir 3. bekkingar með sér heim bækling um eldvarnir heimila. Einnig taka þau þátt í eldvarnargetraun þar sem vegleg verðlaun eru í boði fyrir réttar lausnir. 

 

Page 1 of 156

Viðburðadagatal

Last month December 2015 Next month
S M T W T F S
week 49 1 2 3 4 5
week 50 6 7 8 9 10 11 12
week 51 13 14 15 16 17 18 19
week 52 20 21 22 23 24 25 26
week 53 27 28 29 30 31

Á döfinni

Wednesday 02. December
Þema mið- og elsta stigs
Wednesday 02. December
Þema yngsta stigs
Thursday 03. December
Þema mið- og elsta stigs
Thursday 03. December
Þema yngsta stigs
Friday 04. December
Góðgerðardagur
Tuesday 08. December
Jólagluggi skólans opnaður
Thursday 10. December
Pakkaskil - síðasti skiladagur
Friday 11. December
Vasaljósafriðarganga
Monday 14. December
Jólapeysudagur
Wednesday 16. December
Opinn gangasöngur - Allir velkomnir

Um Grunnskólann

Grunnskólinn í Hveragerði er skóli fyrir nemendur í 1. til 10. bekk.

Go to top